Þessi mynd mun vera tekin veturinn 1947-1948 þegar mokveiði var af síld í Hvalfirði. Bátarnir sem þarna bíða löndunar drekkhlaðnir eru Fram AK 58 og innan við hann Aðalbjörg AK 30. Fram AK 58 var eikarbátur smíðaður í Svíþjóð árið 1943. Fram hf. á Akranesi eignast hann 12. júní árið 1946. Fram er því tiltölulega nýkominn til landsins þegar hann lendir í æfintýrinu í Hvalfirði. Báturinn brann og sökk við Eldey 11. ágúst árið 1966. Sex manna áhöfn bjargaðist. Aðalbjörg var einnig smíðuð í Svíþjóð en ekki fyrr en 1946. Hún er því glæný þegar þessi mynd er tekin veturinn 1947-1948 því eigandinn Þorðvaldur Ellert Ásmundsson á Akranesi fékk hana fyrst skráða 3. des. 1947. Fyrst bar hún bókstafina MB 30 en var snarlega sama ár breytt í AK eins og hjá öðrum Skagabátum. Fiskiver hf. á Akranesi eignaðist bátinn í nóvember 1958 en seldi hann strax eftir áramót til Akureyrar. Þar fékk hann nafnið Hrefna EA. 1. ágúst er báturinn seldur til Reykjavíkur, og heldur Hrefnu nafninu en fær einkennisstafina RE. Hrefna RE sökk um 20 sjómílur undan Stapa í lok júlí 1964. Sex manna áhöfn bjargaðist í gúmmíbát og var síðan tekin upp og bjargað af áhöfn vélbátsins Höfrungs frá Akranesi.