Hljómskálagarðurinn má teljast fyrsti skipulagði almenningsgarður í Reykjavík. Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson mun fyrstur hafa komið með þá hugmynd að gera lystigarð við suðurenda Tjarnarinnar. Ýmsir fleiri vöktu máls á þessu en ekki komst hreyfing á málið fyrr en Einar Helgason garðyrkjufræðingur fékk því til leiðar komið að bæjarstjórnin tók frá land til þessara nota árið 1901. Árið 1908 sendu Knud Ziemsen, síðar bæjarstjóri, og danski arkitektinn Frederik Kiørboe tillögu til bæjarstjórnar um skipulag garðsins. Knud Ziemsen átti einnig frumkvæði að því að sorpi og ösku var ekið í Tjörnina til uppfyllingar og undirstöðu undir Skothúsveginn. Mæltist sú ráðstöfun misjafnlega fyrir því daun lagði af sorpinu. Gerð Skothúsvegar var lokið árið 1920. Öskuhaugarnir voru þá færðir suður í Tjarnarenda og eru að talsverðu leyti undirstaða Hljómskálagarðsins. Fyrstu trén voru gróðursett vestan og sunnan Tjarnarinnar 1914, 400 birkihríslur úr Vatnaskógi, sem uxu hægt framan af. Hljómskálinn var reistur árið 1923. Uppúr því festist nafnið Hljómskálagarður í sessi en áður var garðurinn nefndur Lystigarðurinn. Hið formlega nafn hans er Tjarnargarður. Texti frá Minjasafni Reykjavíkur