Kútter Ása GK 16, eign H.P. Duus í Keflavík. Myndin er tekin á Krossvík við Akranes í byrjun vetrarvertíðar árið 1908 eða þar um bil. Skipið er að sækja Akurnesinga sem ráðnir eru á það yfir úthaldið. Á dekkinu má greina nokkra þeirra, m.a. Vigfús Magnússon frá Jörfa. Sjá má vitann (ljósker) á Akurshólnum á Akranesi Sigurður, sonur hans, kaupmaður og útvegsmaður á Akranesi, gaf Byggðasafni Akraness myndina árið 1958. Vigfús á Jörfa var einn þeirra er drukknaði er kútter Svanur frá Reykjavík fórst við ásiglingu í rúmsjó árið 1912. Ása GK 16 var smíðuð í Englandi og keypt til Íslands 1902. Eik og fura. 89 brl. Með hjálparvél, tegund ókunn. Eigandi Ólafur Á. Ólafsson, Keflavík, frá 17. nóv. 1902. Skipið var selt 12. des. 1904 Firmanu H.P. Duus, Keflavík. Skipið strandaði við Hvalsnes 10. okt. 1919, mannbjörg varð. (Íslensk skip 1, s. 158). Í fyrrinótt strandaði vélskipið Ása, eign H.P. Duus, framundan Hvalsnesi. Vita menn eigi glöggt hvernig slysið hefir að borið en sótsvört þoka var á. Talið er að skip muni alveg ónýtt, hafi brotnað svo mjög. En kyrrt var veður og komust því allir skipverjar heilu og höldnu í land. Ása var á leið héðan til Englands með 60 smálestir af saltfiski. Í gærmorgun átti að fá Björgunarskipið Geir til þess að fara suður og bjarga henni en Geir treysti sér ekki vegna þoku. (Morgunblaðið, 11. október 1919, s.1)