Hlöðver Örn Ólason og Valentínus Ólason (1954-) koma að landi í Götuhúsavör með fullhlaðinn bát af grásleppu. "Þarna erum við bræður að koma að landi, rétt eina ferðina, á bátnum hans pabba. Ég held að ég hafi verið svona 5 - 6 ára þegar ég var settur i skutinn á þessum báti í fyrsta sinn. Halli Bjarna (ljósmyndarinn) birti þessa mynd fyrir mörgum árum í Sjómannablaðinu Víkingi undir fyrirsögninni "síðustu Móhíkanarnir", enda var þetta sennilega einn síðasta árabátur í útgerð á Skaga. Ég og eldri bróðir (Maggi) ásamt Nonna í Koti (Jón Leifsson) rérum þessum árabáti svo einhverju sinni út í Þormóðssker - virtist vera svo stutt í góðu veðri - en þetta er svona 10 sjm (álíka langt og milli Akraness og Reykjavíkur). Við vorum tiltölulega fljótir út að skerinu en svo fór að kula á móti til baka en allt gekk vel - höfðum fjórar árar og rérum sitt á hvað einn með tvær og hinir á sitt hvort borðið". Hlöðver.