Vorið 1930 hófst bygging hafnargarðs út af Heimaskagaklettum og voru fyrstu 70 metrarnir steyptir þá um sumarið. Næstu ár var unnið við lengingu garðsins og var steyptum kerjum sökkt framan við garðsendann en þótti mannvirkjagerðin ganga frekar hægt. Haustið 1933 fór Finnbogi R. Þorvaldsson, verkfræðingur á vegum Hafnarnefndar Akraness til Noregs og Englands þar sem hann skoðaði steinskip sem hugsanlega gætu nýst til bryggjugerðar. Sumarið 1934 var síðan fest kaup á steinskipi, Betóníu að nafni, frá Noregi. Betónía var 58 metra löng og kostaði 10.000 norskar krónur. Skipið fékkst ekki vátryggt á leiðinni til Íslands og fól Hafnarnefndin Finnboga R. Þorvaldssyni að semja um það við söluaðila skipsins í Bergen að einhverjir yrðu fengnir til að draga skipið út til Íslands með þeim skilmálum að viðkomandi fengju ákveðna upphæð (6-7000 krónur norskar) ef þeir kæmu skipinu til Akraness en annars ekkert! Skipið flaut alla leið út til Íslands og var sökkt fyrir framan enda hafnargarðsins. Allt til ársins 1936 skagaði stefni skipsins fram úr garðinum. Hafnarnefnd árið 1934 skipuðu þeir Haraldur Böðvarsson, Magnús Guðmundsson, Ól. B. Björnsson, Pétur Ottesen og Þórhallur Sæmundsson.