Þórður Þ. Þórðarson við fyrst vörubíl sinn

Haraldur Böðvarsson og Þórður Þ. Þórðarson eignuðust fyrsta bílinn sinn saman 1926 en ári síðar, 1927, seldi Þórður Haraldi hlut sinn í bílnum og keypti vörubílinn sem hér sést. Þetta er fyrsti vörubíllinn sem Þórður eignaðist og sama ár stofnaði hann fyrirtæki sitt, Bifreiðastöð ÞÞÞ. Þórður er hér við bílinn, nokkurn veginn þar sem Bíóhöllin var reist 15 árum síðar. - Horft er í norður á þessari mynd. Það mun vera Nýibær sem mest er áberandi t.v. við miðja mynd og sést í þau bæjarhús á nokkrum öðrum myndum á vefsíðunni. – Haraldur Böðvarsson hafði nokkrum árum fyrr keypt tún úr Nýjabæjarlandi og byggt Haraldarhús sem enn stendur. Gatan, sem síðar var nefnd Bakkatún, er hérna aðeins fjær og fyrsta húsið frá hægri, sem stendur sjávarmegin við götuna, upp af kverkinni við Nýjabæjarsand var a.m.k. um tíma notað sem veiðarfærageymsla og útgerðaraðstaða fyrir Sigurð Hallbjarnarson. Næst sést vel í Böðvarshús handan Bakkatúnsins og því næst í verslun hans. T.v. við Böðvarsverslun kemur það sem síðar varð Bakkatún 14, vélsmiðja Ólafs Ólafssonar í Deild. Sama mynd hjá haraldarhus.is nr 3309.

Efnisflokkar
Nr: 38176 Ljósmyndari: Óþekktur ljósmyndari Tímabil: 1900-1929