Skip og bátar

Ferja II loksins komin í notkun. Báðar ferjurnar voru víst innrásarprammar frá landtöku bandamanna á Normandí-skaganum í Frakklandi 1944. Þær komu að sögn hingað til lands vegna þess að einhvern grunaði að þær gætu orðið samgöngubót og ferjað bíla yfir Hvalfjörð. Ferjurnar tvær sem keyptar voru eftir stríð í því augnamiði að notast sem bílaferjur yfir Hvalfjörð voru báðar notaðar á sumrin til malarflutninga í undirstöður undir hafnarmannvirki á Akranesi árum saman. Þeim var jafnan lagt í fjöru yfir veturinn, annað hvort við ósa Berjadalsár eða í Teigavör. Einn vetur var þeim lagt við festar út af Halakotssandi, en slitnuðu upp í suðaustanroki og ráku upp í fjöru, sú sem nær var landi (Ferja I) eyðilagðist. Hin átti viðburðaríka ævi, flutti meðal annars vélar og búnað til byggingar ratsjársöðvanna á Straumnesfjalli, síðar sement til Reykjavíkur árum saman, var rifin eftir að Skeiðfaxi ver smíðaður til þeirra flutninga 1977, þá komin hátt á fertugsaldur og má mikið vera ef önnur skip byggð með sama markmiði hafa dugað lengur. Þarna er ferjan að flytja sekkjað sement. Seinna voru settir tankar í ferjuna og sementið flutt laust í þeim. Tankarnir voru tvær miklar kúlur sem stóðu upp úr lestinni og var gjarnan haft á orði að ferjan væri komin með brjóst!

Nr: 8876 Ljósmyndari: Ólafur Árnason Tímabil: 1960-1969 ola00791