Skjaldamerki

Með konungsúrskurði frá 3. október 1903 var ákveðið, að skjaldarmerki Íslands skyldi vera "hvítur íslenskur fálki á bláum grunni." Fannst mönnum veglegra að nota þennan svipmikla, harðgera og tígulega fugl sem tákn landsins en þorskinn. Það hefur verið sagt, að íslensk skáld og íslenskir fálkar hafi samhliða um þriggja til fjögurra alda skeið haldið uppi hróðri landsins meðal erlendra þjóða. En þegar sá dagur rann, að erlendir höfðingjar hættu að skilja og meta íslensk skáld, þá héldu þeir áfram að dá fálkann um margar aldir og þóttu íslenskir fálkar konungsgersemi og eru eftirsóttir enn í dag. Veiðar með fálkum er eldforn íþrótt, talin upprunnin hjá hirðingjum í Asíu og fyrst einkum iðkuð í Turkestan. Um 2000 árum fyrir Kristsburð voru fálkar taldir höfðinglegar gjafir í Kína. Veiðiíþrótt þessi barst til Evrópu og var stórhöfðingjagaman þar um margar aldir eins og í Austurlöndum. Á Norðurlöndum voru slíkar veiðar tíðkaðar langt aftan úr heiðni. Það var því ekki að undra, þótt það varpaði nokkrum ljóma á hið fjarlæga Ísland að þaðan skyldu koma bestu veiðifálkar, sem völ var á og voru sendir sem gjafir milli konunga og keisara. Eftir að breytt var til um skjaldarmerki Íslands árið 1919 er það af fálkanum að segja, að árið 1920 var gefinn út úrskurður um sérstakan íslenskan konungsfána og í honum íslenskur fálki. Fána af þessari gerð notaði konungur við komu sína til Íslands 1921 og þá um sumarið stofnaði konungur Hina íslensku fálkaorðu. Er fálkamynd einkennismerki orðunnar eins og nafn hennar bendir til. Texti af heimasíðu forsætisráðuneytis

Nr: 49433 Ljósmyndari: Óþekktur ljósmyndari Tímabil: 1900-1929