Útselskópur

Útselur (Halichoerus grypus) eru ólíkir landsel og mun stærri, 2,5 metrar að lengd og yfir 300 kg að þyngd. Urturnar, gráflikróttar á litinn, eru stærstar um 2 m lengd og 180 kg. Brimlarnir eru mun stærri en urturnar, með hærra nef og stærra höfuð, næstum einlitir dökkir. Útselskópar fæðast að hausti, frá september til nóvember og kallast þá læpur. Við fæðingu eru þeir þaktir hvítum fósturhárum, um 80 cm langir og um 12 kg þungir. Hárin losna á 3-4 vikum og grár feldur kemur í ljós. Á meðan liggja þeir í bæli á landi og urturnar gefa þeim að sjúga nokkrum sinnum á dag. Strax að kópauppeldi loknu fer mökun fram. Brimlarnir berjast um mökunarréttinn við urturnar. Sá vinnur yfirleitt sem best er á sig kominn líkamlega og hefur nægilegan spikforða til þess að halda út, því á meðan kópauppeldi og mökun stendur éta útselir ekki neitt að ráði. Hárlos fer hins vegar fram í mars-maí. Þá hópar útselurinn sig saman á skerjum og afviknum stöðum og liggur þétt saman í miklu bróðerni. Á öðrum tímum ársins er útselurinn í ætisleit. Útselir eru fiskætur, eins og landselir, en taka stærri bráð að jafnaði. Aðal fæðutegundirnar eru þorskur, hrognkelsi, steinbítur og síli. Við sendnar strendur eins og við Suðurland er síli allsráðandi í fæðunni. Útselir ferðast lítt, en úrgengnir kópar fara á flakk frá æskustöðvunum. Við truflanir, svo sem samfara veiðiskap, halda selirnir á brott og finna sér nýja kæpingarstaði. Nú er vaxandi útselslátur í Málmey í Skagafirði og í Surtsey, Vestmannaeyjum. Útselir eru útbreiddir á tempruðum hafsvæðum N-Atlantshafs. Mjög stórir stofnar eru við austurströnd Kanada um 130.000 dýr og við Bretlandseyjar um 100.000 dýr. Mun minni stofnar (um og undir 10.000 dýr) eru við Noreg, Múrmansk, Færeyjar, Ísland og í Eystrasalti. Þeir finnast við Bandaríkin Atlantshafsmegin en eru ekki í Kyrrahafi. Útsel hefur fækkað mikið hér við land frá því 1990, en þá voru þeir flestir um 13.000 dýr. Árið 2005 voru þeir rúmlega helmingi færri, um 6.000 dýr. Á síðustu árum hefur útsel fjölgað í innanverðum Húnaflóa, en fækkað við Vestur og Suðurland. Texti af Selasetur Íslands

Efnisflokkar
Nr: 51088 Ljósmyndari: Friðþjófur Helgason Tímabil: 2000-2009