Gjáin Þjórsárdal

Gjáin er stuttur gljúfurdalur, skammt frá uppgröfnum rústum fornbýlisins að Stöng í Þjórsárdal. Þangað inn liggur göngustígur. Rauðá fellur fram í tveimur meginfossum innst í Gjánni og rennur í Fossá á móts við Reykholt. Stærri fossinn heitir Gjárfoss. Tærar uppsprettur hjala í Gjánni, úfnir klettar og gróskumikill gróður, svo sem mosar, grös, víðir, lyng, hvönn og birki, með glaðlegu fuglalífi á sumrin. Telst Gjáin með friðsælustu og fegurstu stöðum Þjórsárdals. Gjáin myndaðist að mestu fyrir þúsundum ára við vatnsrennsli; ef til vill vatnsflaum forvera Þjórsár. Fjögur hraun (svonefnd Tungnaárhraun innan af Veiðivatnasvæðinu) hafa runnið um gljúfurdalinn í kapp við vatn. Það yngsta ruddist fram fyrir um það bil 4.000 árum og nefnist Þjórsárdalshraun. Gjallhólarnir á botni Þjórsárdals eru gervigígar sem hlóðust upp þegar hraunið rann út í stöðuvatn og votlendi en gufustrókar og -sprengingar sundruðu hluta þess. Rauðáin, vindur og frostveðrun hafa svo haldið áfram að móta landslagið í Gjánni. Texti af thjorsarstofa.is

Efnisflokkar
Nr: 49650 Ljósmyndari: Jóhannes Gunnarsson Tímabil: 1970-1979