Heyvinna

Heyvinna á lóðinni þar sem íþróttahúsið við Vesturgötu stendur. Túnið var einfaldlega „barnaskólatúnið“ í þann tíð. þessu túni var skipt upp í ótal fótboltavelli áðurfyrr. Hver bekkjardeild hafði þannig sinn eigin fótboltavöll með mörkum (án neta) og sinn eigin fótbolta. Markstangirnar voru lág stafprik, ca. 20-30 sentímetrar og var stofunúmerið málað á þær. Á hverju hausti var kosið um tvö embætti í hverri bekkjardeild í barnaskólanum. Annars vegar var það svonefndur kladdavörður, sem hafði það hvimleiða hlutverk að merkja við mætingu nemenda, ekki par vinsælt, en hins vegar var mun vinsælli boltavörður, sem hafði það ábyrgðarmikla hlutverk að gæta fótbolta bekkjarins, taka hann úr stofunni í lok hvers tíma og bera hann út á fótboltavöllinn og sjá síðan til þess að hann kæmist heill og ósprunginn aftur í stofuna að frímínútum loknum. Vart þarf að geta þess að stelpur spiluðu ekki fótbolta þá, en ýmist hímdu undir klukkuportinu í frímínútum eða spiluðu „eitt strik og sto“. En húsin tvö á myndinni eru athyglisverð. Til vinstri er hús Þórarins Ólafssonar kennara við gagnfræðaskólann, en til hægri er hús sem jafnan var kallað „Holt“, eftir brekkunni. Það byggði Guðmundur Sveinbjörnsson, fótboltafrömuður, kratahöfðingi og bæjarfulltrúi. Seinna var opmuð lítil bókabúð í kjallara hússins og vissi hún á móti þessu sjónarhorni. Hús Guðmundar Sveinbjörnsonar byggði Lárus Þjóðbjörnsson húsasmíðameistari, líklega árið 1953 -1954. Myndin er því tekin eftir það. Mér sýnist hús Adams Þorgeirssonar vera að rísa þarna ofar í Holtsbrekkunni, sem var nú eina brekkan til að renna sér í á skíðasleðum í eina tíð. Oftar en ekki lokaði lögreglan brekkunni fyrir bílaumferð svo við krakkarnir gætum rennt okkur.

Efnisflokkar
Nr: 5163 Ljósmyndari: Ólafur Árnason Tímabil: 1950-1959 ola00521