Breiðafjörður

Breiðafjörður er stór og grunnur fjörður við vesturströnd Íslands, um 50 km breiður og 125 km langur. Breiðafjörður er á milli Vestfjarðakjálkans og Snæfellsness og er umkringdur fjöllum á þrjá vegu og ganga margir firðir inn úr honum, stærstur þeirra Hvammsfjörður í austurátt. Nokkur þéttbýlissvæði eru að sunnanverðu við fjörðinn en engin norðanmegin. Náttúra Breiðafjarðar er mjög sérstök og einkennist af fjölda eyja. Talið er að þar séu um 3000 eyjar, hólmar og sker. Eyjarnar á Breiðafirði eru eitt af því sem löngum hefur verið talið óteljandi á Íslandi. Sjávarföll eru mjög mikil á firðinum og er munur á flóði og fjöru allt að 6 metrum á meðal stórstreymi. Landslagið tekur því miklum breytingum eftir stöðu sjávar og er þar um fjórðungur af öllum fjörum á Íslandi. Berggrunur Breiðarfjarðar tilheyrir elsta hluta berggrunns Íslands og er um 6 til 12 miljón ára gamall, hluti af tertíer berggrunninum. Hann er að mestu leyti byggður upp af misþykkum basalthraunlögum. Á Hrappsey má finna bergtegundina anortosít og er það eini fundarstaðurinn á Íslandi. Antortosít er stundum nefnd tunglberg því að það er önnur aðalbergtegund tunglsins. Stór skriðjökull lá yfir Breiðafirði á síðustu ísöld og hefur hann að mestu mótað núverandi landslag í firðinum. Texti af Wikipedia

Efnisflokkar
Nr: 51401 Ljósmyndari: Friðþjófur Helgason Tímabil: 2000-2009