Bréf frá Einari B. Oddsyni vesturfara

Battle Creek 28. febrúar 1914. Kæri vinur minn: Innilegt þakklæti fyrir þitt góða brjef dagsett 26.jan. Býst við þegar þú færð þennan lappa að þú hafir fengið miða frá mjer og 10:00 dali er jeg sendi um sama leiti og þú skrifaðir þitt brjef. Bið þig að fyrirgefa mjer hvað seint jeg skrifaði til að láta þig vita að alt frá þinni hendi hefur komið hingað með góðum skilum. Okkur líður öllum vel. Hjer hefur tæplega verið vetur nema þennan febrúar mánuð, sem snjóaði mikið og kuldin hjer komst niður í kring um 25° Celsius einn daginn en logn var og svo kom hann ekki snögglega og þar af leiðandi ekki erfitt að þola. Í Winnipeg, þar sem Helga systir er, varð kuldinn yfir 40° stig Celsius eða nákvæmlega 40-°F eða 74 fyrir neðan frostmark F. Þessi lappi er af okkur Gunnu í einkennisbúning sem við verðum að vera í á sanitarium. Mamma og Gunna biðja hjartanlega að heilsa þjer og þínu fólki, kær kveðja frá mjer. Mig langar mikið að sjá línu frá þjer. Þó eigi það ekki skilið við tækifæri. Vertu blessaður og sæll og góðum guði á hendur falinn óskar þinn einl. Einar B. Oddson Sjá mynd sem var á framhlið bréfsins

Efnisflokkar
Nr: 28236 Ljósmyndari: Óþekktur ljósmyndari Tímabil: 1900-1929