Hópur kvenna skemmtir með gítara á Kristilega mótinu sem haldið var á Kirkjuvallatúninu í 19. - 21. júní 1943. Á myndinni má sjá Kirkjubæ til hægri, hlöðuna frá Kirkjubæ til vinstri og glittir í Hafnarfjall í bakgrunni myndarinnar. Úr fréttablaðinu Akranes, 7.tbl., 2.árg. 1943: Mjög fjölmennt kristilegt mót var haldið hér dagana 19.-21. júní, um þúsund manns, þegar flest var. Slíkt mót, þar sem 500 manns eru fastir þátttakendur, kostar mikið starf, mikla fórn og mikinn áhuga. Samhugur og sigurvissa um gagnsemi slíkra hluta megnar ein að gera slíkt til lengdar. Það er gleðilegur vottur um manndóm, þegar ungt fólk lætur ekki erfiðið og fyrirhöfnina, sem slíku er samfara hamla sér, heldur hugsar aðeins um nytsemi þá, uppörfun og endurnýjun, og samstilling hugans að einu marki, sem slík samvera skapar. Þetta fólk hefur fengið góðan skóla hjá þeim, sem ekki hefur hugsað í „álnum og aurum“í starfi sínu fyrir þetta land um síðastliðin 50 ár. En ævistarf séra Friðriks Friðrikssonar er vanmetið, ef það er ekki metið gulls í gildi fyrir samtíð og framtíð þessa lands. Alla dagana voru haldnar samkomur í kirkjunni eða í tjaldbúð mótsins með söng og sambæn. Tvo dagana var altarisganga. Síðari daginn 400 manns. Veður var hið ákjósanlegasta.