Þessi mynd eftir óþekktan höfund sýnir Northrop N-3PB sjóflugvéla breska flughersins í Teigavör á Akranesi. Hún virðist hafa verið tekin úr leyni þar sem myndasmiðurinn hefur gægst fyrir húshorn og smellt af. Myndatökur óbreyttra borgara af hernaðarumsvifum voru stranglega bannaðar og gátu auðveldlega flokkast undir njósnir. Northrop flugvélarnar tilheyrðu 330. flugsveitinni sem var skipuð norskum flugmönnum sem gengið höfðu í lið með Bretum til að berjast gegn þýska heraflanum sem hernumið hafði heimaland þeirra. Flugsveitin starfaði hér á landi og var sérhæfð í vörnum skipalesta og leit að kafbátum. Á bak við þessa ljósmynd er saga. Vélin á myndinni ber einkennisstafina GS-B (raðnr. 311). Klukkan 12:50 þann 9. janúar 1942 fór þessi vél frá Skerjafirði í kafbátaleitarflug yfir Faxaflóa, svokallað "Hvalfjord Sweep". Veður versnaði á meðan á fluginu stóð. Klukkan 15:45 þegar vélin var stödd við Garðskaga ákvað flugstjórinn að lenda við Akranes, þar sem gekk á með éljum, tekið að skyggja og skyggnið innan við 50 metra. Þar lenti vélin kl. 16:10 áfallalaust. Veður gaf ekki til flugs næstu daga og þann 14. janúar var sent "björgunarteymi" (rescue team) frá Reykjavík til Akranes. Ekki er ljóst í hverju "björgunin" átti að felast, þar sem flugvélin var óskemmd og flughæf eftir lendinguna. Líklega hafa menn farið með hjól (beaching gear) til að draga vélina á land vegna óverðursins sem var í vændum næsta dag, en þá mældist mesti vindhraði sem mælst hefur í Reykjavík frá því að mælingar hófust að því er Trausti Jónsson veðurfræðingur segir. Þetta óveður olli meðal annars tjóni á skipum í Hvalfirði. Northrop vélarnar báru ekki slík hjól á sér. Hljóta þau sem sjá má á myndinni því að hafa verið send frá Reykjavík. Út frá þessu má ætla að myndin hafi verið tekin einhverntíma á dögunum 14. – 16. janúar. Þann 16/1 kom vélin aftur til Reykjavíkur. (Heimild: Ragnar J. Ragnarsson). (Texti við myndir eftir Magnús Þór Hafsteinsson, vegna sýningarinnar Hernámið, sem var á vegum Ljósmyndasafns Akraness árið 2008) Saga sjóflugvélarinnar Northrop N-3PB yrði ákaflega rýr ef Íslandskafla hennar yrði sleppt, en hún var nær eingöngu notuð hér. Vélin var upphaflega hönnuð fyrir norska flugherinn, en þegar hann tók hana í notkun var Noregur kominn á vald Þjóðverja. Flugvélarnar voru því fluttar til Íslands og settar saman hér, líklega að mestu í flugskýlum í Nauthólsvík. Þar í víkinni (þar sem ylströndin er nú), á Akureyri, og á Búðareyri við Fáskrúðsfjörð voru bækistöðvar flugsveitar Norska flughersins nr. 330 sem notaði vélarnar. Notkunarsaga þeirra varð ekki löng, aðeins um tvö ár hér á landi, og flestar voru þær rifnar hér. Varðveislusagan er hins vegar mun lengri og er enn í ritun. Árið 1979 var flak einnar Northrop sjóflugvélar híft upp úr Þjórsá, þar sem það hafði legið í 36 ár. Vélin var endursmíðuð í verksmiðjum Northrop í Kaliforníu og er nú á safni í Noregi. Árið 2002 fannst flak annarrar vélar á botni Skerjafjarðar. Saga þeirrar vélar er óviss og jafnvel er talið að um borð séu líkamsleifar allt að þriggja manna. Flakið er því friðlýst. (Guðmundur Benediktsson, eftir ýmsum heimildum)