Þessi mynd er tekin af Hvítanesi vorið 1943. Erill er við stóru bryggjuna á austanverðu nesinu, en hún var einkum ætluð til að skipa á land og út aftur hlutum úr kafbátagirðingunni sem þurfti stöðugt viðhald. Stóra planið á nesoddanum var notað til að vinna í neti girðingarinnar. Skemman fyrir kafbátagirðinguna er risin. Við hlið hennar er komin önnur sem hýsti geymslu fyrir tundurdufl og viðhaldsbúnað fyrir tundurduflagirðingu sem var í Hvalfirðinum við Hálsnes. Flotastöðin var á þessum tíma orðin meiriháttar byggð með krá, kvikmyndahúsi, birgðageymslum og fleiru sem prýða má slíkan rekstur. Þarna voru um 250 byggingar. Dísilrafstöðvar sáu stöðinni fyrir rafmagni. Þarna var vatnsveita, götulýsing og gufukynt hitaveita í mörgum húsum. Nú er fátt sem minnir á þessa fornu frægð í Hvítanesi. (Texti við myndir eftir Magnús Þór Hafsteinsson, vegna sýningarinnar Hernámið, sem var á vegum Ljósmyndasafns Akraness árið 2008)