Á myndinni er háttsettur breskur herforingi ásamt þremur prestum fyrir utan við húsið Bræðraborg við Skólabraut. Skammt frá stendur Akraneskirkja. Í bakgrunni sést flokkur hermanna athafna sig á götunni. Presturinn sem stendur í miðjunni með kross um hálsinn er Frederick Llewellyn Deane biskup í Aberdeen í Skotlandi. Hann vígðist til þess embættis í fyrri heimsstyrjöld árið 1917. Samtímis fékk hann það verkefni að verða biskup breska sjóhersins “í Norðurhöfum”. Faðir Dean var annálaður fyrir dugnað í embætti. Hann var ferðaglaður með afbrigðum. Þegar seinna stríð braust út var hann óþreytandi að heimsækja breska hermenn og sjóliða á Hjaltlandseyjum, Orkneyjum, í Færeyjum og á Íslandi. Hann lagði í allt að fjóra slíka leiðangra árlega þar til hann lét af embætti sökum aldurs árið 1943. Ferðagleði biskups aflaði honum heitisins “biskupinn fljúgandi”. Sögur fóru meðal annars af biskupnum sem miklum sjóhundi sem aldrei varð flökurt þó harðskeyttustu skipstjórar lægju fyrir vegna sjóveiki í illviðrum. Hann var ákaflega vinsæll og dáður meðal hermannanna sem kunnu að meta harðfylgni hans og augljósan vilja til að sinna þeim á erfiðum stöðum. Biskupinn var mjög hrifinn af Íslandi og kom oft hingað til lands. Í tilhlökkun sinni vegna væntanlegra Íslandsferða átti hann oft erfitt með að þegja um hvert hann væri að fara. Af þeim sökum urðu hernaðaryfirvöld oftar en einu sinni að fresta för hans af öryggisástæðum eftir að Deane biskup hafði gert heyrinkunnugt að hann væri að fara til Íslands. Menn tóku ekki áhættuna á því að þýskir njósnarar kæmu því á framfæri og biskupnum veitt fyrirsát. Prestarnir í fylgd biskups eru óþekktir en hér mun sennilegast um herpresta að ræða. Annar þeirra ber merki flughers og hinn landhers. Stuart Donald við skrifstofu biskupsdæmisins í Aberdeen í Skotlandi veitti góðfúslega hjálp til að bera kennsl á Dean biskup í aðdraganda hernámssýningar Ljósmyndasafns Akraness 2008.
Hér má sjá mynd tekna í sama skiptið
Hér má sjá mynd tekna í sama skiptið