Hrafn (eða krummi) (fræðiheiti: Corvus corax) er stór svartur fugl af hröfnungaætt. Hann er með sveigðan gogg. Hrafnar verða um 60 - 75 cm langir með um tvöfalt stærra vænghaf. Hrafnar þrífast í fjölbreyttu umhverfi og eru algengir um allt norðurhvel jarðar. Flestir hrafnar kjósa að gera sér hreiður í skóglendi, fjöllum eða við strendur. Hreiður hrafnsins nefnist „laupur“ á íslensku. Hann verpir á vorin 4 – 6 eggjum. Ungarnir koma úr eggjunum eftir u.þ.b. þrjár vikur. Utan varptíma safnast hrafnar í stórum hópum saman á ákveðnum stöðum og þeir eru oftast tveir og tveir saman á ferð. Á haustin má sjá þrjá eða fleiri hrafna saman og eru þar að öllum líkindum á ferðinni foreldrar með nýfleyga unga. Hrafnar eru ákaflega tryggir maka sínum og endist hjúskapur þeirra ævilangt. Líkt og aðrir hröfnungar getur hrafninn hermt eftir hljóðum úr umhverfi sínu, þar með töldu mannamáli. Hrafninn er stærsti spörfuglinn á Íslandi og er einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru. Hann er algengur um allt land. Hann er staðfugl á Íslandi og duglegur að bjarga sér þegar hart er í ári.