Randasveifa

Randasveifa (Helophilus pendulus) Útbreiðsla Gjörvöll Evrópa, frá Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, Rússland frá Kólaskaga suður til Krímskaga, austur um Síberíu til Kyrrahafs; Færeyjar. Ísland: Algeng á láglendi um land allt en fágæt á miðhálendinu þar sem hún hefur fundist í Þjórsárverum og Grágæsadal á Brúaröræfum. Lífshættir Randasveifa er algengust í blómlendi við lífríkar tjarnir og díki, í gróðurríkum skurðum með kyrrstæðu vatni og miklu groti. Hún laðast einnig að garðtjörnum með rotnandi laufum og pollum við fjóshauga. Flugurnar sækja í blóm. Lirfurnar alast upp í vatni og nærast á rotnandi plöntuleifum. Randasveifur sjást frá vori til hausts, byrjun maí og fram í október, en mest ber á þeim yfir sumarmánuðina þegar sólar nýtur við. Almennt Randasveifa er einkar falleg með gulu og svörtu litmynstri sínu, langröndóttum frambol og flekkóttum afturbol. Af þeim sökum er hún stundum mistekin fyrir geitung, þó litmynstrið sjálft sé fjarri því að vera líkt á þessum fjarskyldu skordýrum Upplýsingar af ni.is

Efnisflokkar
Nr: 11069 Ljósmyndari: Eiríkur Kristófersson Tímabil: 2000-2009 eik00066