Herskip á Hvalfirði

Hér er komin stórmerkileg og spennandi ljósmynd. Ljósmyndarinn hefur framið alvarlegt brot með því að taka hana, því svona myndataka var stranglega bönnuð. Myndin er tekin í Hvalfirði á stríðsárunum. Ég (Magnús Þór Hafsteinsson) þekki þarna útlínur breska orrustuskipsins HMS Hood sem þýska orrustuskipið Bismarck sökkti í frægri sjórrustu vestur af landinu 24. maí 1941. Skipið lá í Hvalfirði 21. - 28. apríl 1941 og aftur 3. og 4. maí sama ár. Efalítið er þessi mynd tekin einhvern þessara daga. Farþegaskipið er óþekkt en það mætti kannski þefa það uppi. Til hægri sjáum við svo olíuskip. Hvaða sveitabær er þetta? Sveitabærinn eru gömlu bæjarhúsin á Hvítanesi í Hvalfirði þar sem síðar reis mikil flotastöð. Framkvæmdir við hana hófust vorið 1941. Ekki er sjáanlegt að þær séu hafnar á þessari mynd þannig að þetta styður að myndin sé tekin snemma vors árið 1941 þegar Hood var hér og um það leyti sem menn hófu að reisa hús og önnur mannvirki flotastöðvarinnar. Myndin er sennilega tekin frá þjóðveginum fyrir ofan bæinn og við sjáum vörubíl á leið upp afleggjarann eða veginn niður á nesið þar sem gerðar voru bryggjur sem enn standa að nokkru leyti. (Texti við myndir eftir Magnús Þór Hafsteinsson, vegna sýningarinnar Hernámið, sem var á vegum Ljósmyndasafns Akraness árið 2008)

Efnisflokkar
Nr: 24886 Ljósmyndari: Bjarni Árnason Tímabil: 1930-1949 bar00856