Miðunarstöðin á Breið

Á myndinni sést miðunarstöðin á Breið með loftnetið ofan á þakinu. Hringurinn er nú geymdur í nýrri vitanum, þeim til hægri, sem enn er í notkun. Árið 1948 tók Guðmundur Guðjónsson (1905-1990) við miðunarstöð fyrir báta og fiskiskip sem var í litlu húsi á niðri á Breið. Iðulega mun vinnudagurinn hafa verið langur þarna með bátum á sjó í misjöfnum veðrum. Dýptarmælar voru komnir en annars stýrt eftir áttavita og landsýn. Í miklu dimmviðri þurftu bátar oft aðstoðar við og varð að miða þá út og upplýsa hvar þeir væru nákvæmlega staddir. Síðar, vegna nýrrar tækni, tilkomu ratsjárinnar og betri siglingartækja, var miðunarstöðin lögð niður og Guðmundur fór að sjá um talstöð þá sem útgerðarmenn á Akranesi ráku í sameiningu sem þjónustumiðstöð fyrir báta sína og var aðstaða hans til þessa í húsi hans og konu hans, Kristjönu Þorvaldsdóttur að Suðurgötu 34. Lesa má frekar um störf Guðmundar við miðunarstöðina og notkun talstöðva um borð í bátum í bókinni „Til fiskiveiða fóru: 70 ár á sjó og landi“ í samantekt Haraldar Sturlaugssonar og Sigurdórs Sigurdórssonar frá árinu 1976. Þar kemur m.a. fram aðstaða sú sem landmenn þurftu iðulega að búa við á sínum tíma í tengslum við komu báts úr róðri. Þótt talstöðvar væru komnar um borð, mun Landsíminn ekki hafa leyft skipstjórum að „tilkynna um komutíma sinn í land“ um talstöð – en Guðmundur hafði þetta strax að engu til mikils hægðarauka fyrir landmenn hans. Sama mynd á haraldarhus.is 3629

Efnisflokkar
Nr: 38478 Ljósmyndari: Ólafur Frímann Sigurðsson Tímabil: 1950-1959