Einar Ingjaldsson

Einar Ingjaldsson (1864-1940) hóf á barnsaldri, um 13 ára, að stunda sjósókn og átján ára gamall mun hann hafa orðið formaður á opnum bát. Hann var formaður í yfir 50 ár, „þótti mjög aflasæll, góður stjórnari og hafði mannhylli“ og „var óvenju hreinlyndur og fór ekki í manngreinarálit.“ - „Einar var ekki mikið viðriðinn opinber mál, var þó í hreppsnefnd oftar en einu sinni og þar þá ötull og tillögugóður“. Í ársbyrjun 1884, í Hoffmannsveðrinu svokallaða, var Einar háseti á Hafrenningi, eina skipinu sem mun hafa komist af í því veðri. Einar var um tíma formaður á Elliða, áttæringi Böðvars Þorvaldssonar, og sótti meðal annars á honum í hákarlalegur. Árið 1899 keypti Einar í félagi við Björn Hannesson á Litlateig dekkskipið Hermann. Sóttu þeir um árabil fisk í ensku togarana í Faxaflóa, vetur og vor, en gerðu út á handfæri að sumrinu. Um haustið 1901 keyptu þeir kútter Harald MB 1 af Böðvari Þorvaldssyni og gerðu hann út í 3–4 ár. Það var á þessum tíma sem Geir nokkur Sigurðsson var um hríð skipstjóri á kútternum. Hann er talinn höfundur „Kátir voru karlar / á kútter Haraldi..." Fyrsti vélbáturinn sem kom til Akraness 1906 var Pólstjarnan, 28 feta langur og 5 smálestir að stærð, yfirbyggður að framan með járnhúsi yfir 8 ha. Danvél, smíðaður af Otta Guðmundssyni, skipasmið í Reykjavík. Einar var einn af eigendum Pólstjörnunnar og formaður. Pólstjörnuna átti hann í félagi við Svein bróður sinn, Þorstein Jónsson á Grund og Einar Ásgeirsson. Einar Ingjaldsson átti í fleiri bátum, m.a. Stíganda sem smíðaður var í Reykjavík 1909 fyrir nokkra Akurnesinga. Þar varð Einar formaður. Fyrstu vorvertína var gert út hjá Matthíasi Þórðarsyni í Sandgerði sem þá átti einu verstöðina í Sandgerði. Árið eftir byggðu þeir skúr á Hólmanum í Vogunum þar sem útgerðamenn Höfrungs (Haraldur Böðvarsson) og Fram (Loftur Loftsson, Þórður Ásmundsson og Bjarni Ólafsson) höfðu byggt sér sameiginlega aðstöðu. Mun báturinn ávallt síðan hafa verið gerður út á vertíð frá Vogum. Einar og félagar hans seldu Haraldi Böðvarssyni Stíganda 1913 og sama ár lét Einar Ingjaldsson ásamt Böðvari Þorvaldssyni og Haraldi Böðvarssyni byggja vélbátinn Val MB 1 á Akranesi. Þetta var tæplega 10 tonna eikarbátur og áttu þeir hann til 1929. Árið 1931 létu Einar og Júlíus, sonur hans, smíða fyrir sig Val MB 18, rösklega 22 tonna „mótorþilskip” í Danmörku. Júlíus varð skipstjóri en báturinn var seldur 1946. Einar Ingjaldsson var fyrsti heiðursborgari Akraness, þá Ytri-Akraneshrepps, árið 1939.

Nr: 55620 Ljósmyndari: Óþekktur ljósmyndari Tímabil: 1930-1949