Sjósunds og sjóbaðsfélag Reykjavíkur fór í heimsókn upp á Akranes þann 17. september 2011 í boði Haraldar Sturlaugssonar. Skagamenn eru búnir að koma upp frábærri aðstöðu fyrir sjósundsfólk fyrir neðan knattspyrnustúkuna og stutt er þaðan niður í fjöru og eins upp í sundlaug. Langisandur tók á móti gestunum með frábæru veðri og flottum sjó, fullum af öldum. Hópurinn lék sér heillengi í öldunum og hefur sjaldan verið hlegið meira í sjósundi. Eftir sjósundið var farið í sundlaugina og síðan snædd súpa, kaffi og kökur við nýju aðstöðuna. Haraldur fræddi okkur um fyrirhugaðar framkvæmdir en ætluninn er að setja upp bæði heitan pott og útisturtur. En það er ekki bara hægt að synda á Langasandi. Gestirnir skoðuðu líka Skarfavör við Akranesvita en þaðan er hægt að synda í átt að Langasandi. Eins skoðuðu þeir Lambhúsavör bak við Bíóhöllina, fallega vík sem gott er að synda í. Að lokum gestum boðið að skoða einstakt safn um Akranes og fjölskyldu Haraldar sem hann er búin að koma fyrir í kjallara Haraldarhúss. Rúmlega 50 manns koma með í þessa frábæru ferð og nutu gestrisni og veitinga í fallegu haustveðri. Frétt unnin upp úr sjosund.is sem er vefur Sjósunds og sjóbaðsfélags Reykjavíkur.