Þetta skip er þarna í einni af sínum síðustu veiðiferðum. Hét áður Sölvi Bjarnason BA, skuttogari smíðaður hjá Þorgeir og Ellert á Akranesi árið 1980 og þótti mikið skip. Var í fjölda ára gerður út frá Tálknafirði og Bíldudal. Þessi mynd er tekin í lok febrúar 2001 en þá gekk loðna vestan að og inn í Faxaflóa. Þarna var þá búið að breyta gamla skuttogaranum í nótaskip. Við Friðþjófur Helgason fengum Pétur Þór Lárusson á Akranesi til að sigla með okkur út á flóann með hraðbát sem hann átti og hét Háhyrningur. Ef ég man rétt var Seley seld í brotajárn eftir þessa loðnuvertíð. Fjær sjáum við svo aftan á annað skip sem einnig markaði spor í eitt sinn svo glæsta útgerðar- og skipasögu Akraness. Þetta er Harpa VE sem til áratuga var gerð út frá Akranesi sem Árni Sigurður og síðar Höfrungur. Fyrir Hörpu áttu einnig eftir að liggja sömu örlög og biðu Sölva Bjarnasonar/Seleyjar. Nokkur misseri liðu og þá fór hún sömu leið í brotajárn.