SKAGAFLEIKFLOKKURINN frumsýnir leikritið Lifðu (yfir dauðans haf) eftir Kristján Kristjánsson í Bjarnalaug á Akranesi 31. mars árið 2000. Leikritið fjallar um þrjá menn sem komast á kjöl þegar báti þeirra hvolfir í blíðskaparveðri einn þokudag um haust í byrjun 20. aldar. Hér eru feðgar á ferð á leið til læknis í höfuðstaðnum en faðirinn hefur áhyggjur af andlegri heilsu sonarins. Þeir taka sér far með manni, sem þeir halda ferjumann, yfir fjörð á litlum árabáti. Bátnum hvolfir á miðjum firði og lýsir verkið baráttu mannanna fyrir lífi sínu og viðbrögðum þeirra við þessum ógnvænlegu kringumstæðum. Mennirnir þrír gera upp líf sitt þarna á kilinum, hver með sínum hætti og kemur ýmislegt óvænt upp úr kafinu. Hlutverkin eru sérstaklega skrifuð með leikarana þrjá í huga. Kristján leikstýrir verkinu sjálfur. Hann hefur áður gefið út nokkrar ljóðabækur og skáldsögur og árið 1992 setti Skagaleikflokkurinn upp leikritið Alltaf má fá annað skip eftir Kristján, og var það sýnt víða um land og einnig var ferðast með verkið til Danmerkur og Svíþjóðar. Kristján hefur leitað til aðila sem hafa reynslu að baki svipaða og er fjallað um í verkinu Lifðu. Höfundur tónlistar er Orri Harðarson .