Tjaldur

Tjaldur (fræðiheiti: Haematopus ostralegus) er vaðfugl af ættbálki strandfugla og telst til tjaldættar. Í varpbúningi er tjaldurinn svartur að ofan og niður að bringu, en hvítur undir. Fætur eru rauðbleikir og gildvaxnir, og goggurinn rauðgulur og langur, hliðflatur og lítið eitt uppsveigður. Gumpur er hvítur og augu rauð. Tjaldurinn er um 43 cm að lengd. Tjaldar eru útbreiddir varpfuglar við strendur Norðvestur-Evrópu. Varpútbreiðsla er einnig nokkuð samfelld um miðbik Austur-Evrópu og Vestur-Asíu slitrótt austast í norðanverðri Asíu. Á Íslandi eru tjaldar algengir varpfuglar á láglendi í öllum landshlutum, einkum í grennd við sjó en sums staðar leita þeir nokkuð inn til lands. Á sumrin halda tjaldar sig aðallega í sand- og malarfjörum, á leirum eða öðrum landsvæðum nærri ströndu. Þeir sækja einnig talsvert á tún og upp með ám langt inn til landsins en á veturna halda þeir eingöngu til með ströndum. Tjaldur á Íslandi: Tjöldum hefur fjölgað á Íslandi það sem af er þessari öld. Í byrjun aldarinn voru þeir langalgengastir við Faxaflóa og Breiðafjörð en sjaldséðari með ströndum á landinu norðvestan- og norðanverðu. Nú halda þeir sig einnig mun meira inni í landi en áður. Þessi umskipti eru að einhverju leyti talin tengja hlýnandi veðurfari framan af öldinni en aukin ræktun kann einnig að hafa haft sín áhrif þar sem tjaldar leita talsvert á tún til þess að afla sér fæðu. Flestir íslenskir tjaldar eru farfuglar en slæðingur (2.000-3.000 fuglar) heldur til við suður- og vesturströndina á veturna. Farfuglar fara að sjást á ströndum í seinni hluta mars en heldur seinna inn til landsins eftir vetrardvöl erlendis. Frá varpstöðvunum hverfa fuglarnir í lok ágúst og byrjun september. Tjaldar verpa hvarvetna með ströndinni. Álitið er að á Íslandi kunni vera um 10.000 varppör sem er tiltölulega lítill hluti af heildarstofni tegundarinnar í heiminum. Texti af Wikipead

Efnisflokkar
Fuglar ,
Nr: 52561 Ljósmyndari: Friðþjófur Helgason Tímabil: 2000-2009