Rjúpa (Lagopus muta) er eini hænsnafuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Flestir þekkja rjúpuna, hún er hnellin og vængirnir stuttir og breiðir. Hún fellir bolfjaðrir þrisvar á ári, en flugfjaðrir aðeins einu sinni. Á veturna er rjúpan alhvít, en að mestu brún á sumrin. Á haustin er rjúpan grábrún. Kviðurinn og fiðraðir fæturnir eru hvítir árið um kring, sem og flugfjaðrir, en stélfjaðrirnar svartar. Á vorin skrýðast kvenfuglarnir sumarbúningi um það bil mánuði fyrr en karlfuglarnir, karrarnir. Þeir eru hvítir fram í júní, en þá er kvenfuglinn orpinn. Þeir eru mjög áberandi þegar þeir tylla sér þá á háa staði, þenja rauða kambana og verja óðal sitt. Í algleymi tilhugalífsins eru þeir auðveld bráð fyrir fálka, alhvítir og annars hugar í dökku umhverfi. Þeir stunda þá leirböð af kappi og er hvíti liturinn oft orðinn ansi leirugur, áður en þeir skipta alveg yfir í sumarfiðrið. Annað sem einkennir rjúpuna, er að ungar verða fleygir á 10 dögum, löngu áður en þeir ná fullri stærð. Rjúpan verpur á lyngheiðum, í móum, kjarri, skóglendi og grónum hraunum frá fjöru til fjalls. Hreiðrið er fóðruð skál, vel falin í runnum eða lyngi. Rjúpur halda til fjalla á haustin en þegar jarðbönn hamla beit leita þær niður á láglendi og halda þá til í hlíðum, kjarri og jafnvel í byggð, kvenfuglar og ungfuglar flakka meira, karrarnir halda sig oft í varplöndunum árið um kring. Rjúpan er einn fárra fugla, sem sjást á miðhálendinu á veturna, hinir eru krummi, snjótittlingur og stundum sést fálki elta rjúpu á snævi þöktu hálendinu. Rjúpan er spakur fugl, þar sem hún er óáreitt. Texti af Náttúruminjasafni Íslands