Arnarstofninn á Íslandi telur 73-74 fullorðin pör (2014) og hefur rúmlega þrefaldast frá því að bannað var að eitra fyrir tófu árið 1964. Árið 2005 komust 36 arnarungar á legg og eru það fleiri en nokkru sinni síðan farið var að fylgjast með arnarvarpi árið 1959. Aðalheimkynni arnarins eru við Breiðafjörð en þar halda nú til rúmlega 40 pör eða 2/3 hlutar stofnsins. Hafernir verptu fyrr á öldum yfirleitt á óaðgengilegum stöðum, í ókleifum klettum eða hólmum í ám og vötnum. Sennilegt er að ernir kjósi að verpa á láglendi en hafi hrakist upp í hamra vegna ofsókna manna. Þegar ernir voru friðaðir og búseta í eyjum og nytjar af eyjum minnkaði um miðja 20. öld þá fluttu ernir heimkynni sín að mestu leyti úr hömrum í landi út í tanga og hólma. Haförninn er á Íslandi oftast aðeins nefndur örn, og á þeim svæðum þar sem hann verpir er hann kvenkenndur af heimamönnum og nefndur assa (bæði kynin) Texti af Wikipedia