Háhyrningur

Háhyrningur (fræðiheiti Orcinus orca) er stórt sjávarspendýr, af tannhvalaætt. Þeir eru ein af þrjátíu og fimm tegundum höfrunga og stærstir af þeim. Háhyrningar eru eina tegundin af ættinni Orcinus. Þeir eru rándýr, sumir stofnar virðast lifa einkum af fiski en aðrir á ýmsum sjávarspendýrum, selum, rostungum og hvölum. Háhyrningar eru útbreiddir á öllum heimshöfum, á heimskautasvæðum sem og á hitabeltissvæðum. Þeir eru þó mun algengari á landgrunnssvæðum fjarri hitabeltinu. Að sumrinu sjást háhyrningar oft nærri landi, inni á fjörðum og flóum, en yfir veturinn halda þeir sig á meira dýpi. Það er þó mikill munur á farmynstri háhyrninga og ekki hægt að sjá eitt einhlítt munstur.[2] Háhyrningar hafa sést inni á Miðjarðarhafi og Eystrasalti en eru ekki algengir þar. Norður- og suðurmörk útbreiðslunnar fylgir að mestu ísjaðrinum en þó eru mörg dæmi um háhyrninga inni í rekíssvæðum. Háhyrningar eru algengir við Íslandsstrendur, á sumrin og haustin einna helst á síldarmiðum undan Austfjörðum, Suður- og Vesturlandi en þeir sjást allt umhverfis landið. Þeir elta oft síldar- og loðnuvöður inn í firði. Háhyrningar þurfa fæðu, fisk eða kjöt, sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra daglega og dýr sem er um sjö tonn þarf frá 175 til 350 kg af fæðu á dag. Háhyrningar eru mjög hraðsyntir og árið 1958 mældist eitt dýr synda 55,5 km/klst. í Kyrrahafi.[3] Miklar rannsóknir við vesturströnd Norður-Ameríku sýna að háhyrningar skiptast í tvö aðgreind afbrigði. Þau eru ólík í atferli, fæðuvali, lögun horns, litamynstri og erfðaeinkennum.[4] Þessi tvö afbrigði voru upphaflega kölluð „staðbundna afbrigðið“ (á ensku residents) og „flakkaraafbrigðið“ (á ensku transients) en síðar hefur komið í ljós að ekki réttnefni þar sem hópar úr báðum afbrigðum geta verið staðbundin og flakkarar. Hins vegar er fæðuval fyrrnefnda afbrigðisins nánast eingöngu lax og aðrar fisktegundir en sá síðari er sérhæfður í veiðum á spendýrum og fuglum. Hugsanlega verða þessi tvö afbrigði skilgreind sem tvær tegundir í framtíðinni. Óvíst er að hvaða marki þessi afbrigðamunur er sá sami á öðrum svæðum. Háhyrningar eru eins og aðrir höfrungar mikil hópdýr, virðist flakkaraafbrigðið halda sig í fremur litlum hópum, fjölskylduhópum, 2 til 4 dýr, en staðbundna afbrigðið í fremur stærri, 10 allt upp í 50 dýr. Texti af Wikipedia

Efnisflokkar
Nr: 51066 Ljósmyndari: Friðþjófur Helgason Tímabil: 2000-2009