Jóhanna Þorgeirsdóttir (1930-2006) Jóhanna J. Þorgeirsdóttir fæddist á Litla-Bakka á Akranesi 1. september 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Þorgeir Jósefsson framkvæmdastjóri Þorgeirs & Ellerts á Akranesi og Svanlaug Sigurðardóttir. Jóhanna lauk stúdentsprófi frá M.A. 1951. Hún nam við Háskóla Íslands 1951-1953 og lauk prófi í efnafræði og uppeldis- og kennslufræði. Einnig sótti hún fjölda námskeiða við K.H.Í. Jóhanna giftist bekkjarbróður sínum Hjalta Jónassyni skólastjóra frá Flatey á Skjálfanda 14. nóvember 1953. Börn þeirra eru Þorgeir vélstjóri, f. 1953, Svanfríður, starfsmaður Íþróttafélagsins Fylkis, f. 1955, Þórgunnur, f. 1957, d. 1958, Þórgunnur, hjúkrunarfræðingur og viðskiptafræðingur, M.S., f. 1960, gift Sigurjóni R. Grétarssyni rafeindavirkja, Guðmundur endurskoðandi, forstjóri Kers hf., f. 1963, kvæntur Bogey R. Sigfúsdóttur, B.A. í frönsku, Þorsteinn, viðskiptafræðingur, f. 1968, starfsmaður Landsbankans, kvæntur dr. Berglind Jóhannsdóttur tannréttingasérfræðingi. Barnabörnin eru 11. Jóhanna starfaði sem kennari í Reykjavík 1952-1997, við ýmsa skóla, meðal annars Vogaskóla, Miðbæjarskóla, Austurbæjarskóla og síðustu 17 árin við Seljaskóla. Eftir að hún hætti störfum við Seljaskóla kenndi hún í Nemendaþjónustunni til ársins 2005.