Hannes Guðmundsson

Hannes Júlíus Guðmundsson (1903-1975) bjó alla ævi sína á Akranesi, lengst af á Dvergasteini (Vesturgötu 88). Hannes Guðmundson var fæddur 10. júlí 1903 að Melaleiti á Akranesi. Foreldrar hans voru Þórunn Sigurðardóttir og Guðmundur Ásgeirsson, sjómaður. Börn þeirra hjóna voru þrjú. Úrsúla sem var elst, Ásgeira sem var árinu yngri og svo Hannes sem var 9-10 árum yngri. Á uppvaxtarárum Hannesar var knattspyrnan að byrja að ryðja sér til rúms meðal æskumanna á Skaganum enda þó ekki færu fram keppnir. Á unglingsárum Hannesar eða um 1920, var þróttmikið íþróttalíf á Akranesi á vegum íþróttafélagsins Harðar Hólmverja og fóru íþróttamót fram víðsvegar um skagann en Hannes sem var 17 ára gamall tók þátt í hlaupum og glímu og vann þar til verðlauna. Hann gerðist félagi í knattspyrnufélaginu Kára er það var stofnað og keppti fyrir félagið á fyrstu árum þess og reyndist traustur og góður liðsmaður. Áhugi Hannesar á íþróttastarfi æskunnar entist til hinsta dags. Hannes byrjaði ungur að stunda sjóinn og hafði sjómennsku að aðalstarfi til ársins 1949. Hann var í skiprúmum hjá mörgum mikilhæfum og aflasælum skipstjórum og má þar til nefna, Eyleif Ísaksson, Guðmund Guðjónsson og Ragnar Friðriksson. Hannes var einn skipverja sem björguðust af Birni II frá Keflavík, sem sökk í aftakaveðri norðvestur af Akranesi 12. febrúar 1944, en skipverjum á Fylki frá Akranesi heppnaðist að bjarga allri áhöfninni. Skipstjóri á Fylki var Njáll Þórðarson. Eftir að Hannes hætti sjómennsku vann hann árum saman við frystihús Haralds Böðvarssonar & CO á Akranesi, enda fékk hann meðal annarra góðra starfsmanna þakkir og viðurkenningu fyrirtækisins fyrir mikil og góð störf. Hann kvæntist árið 1926 Elínu Ólafsdóttur frá Vindási i Kjós. Heimili þeirra var á Suðurgötu 20 á Akranesi. Sambúð Elínar og Hannesar varð ekki löng, dauðinn barði að dyrum hinna ungu hjóna. Elín dó af barnsförum 9. okt. 1927. Lítil stúlka hafði fæðst og var skírð við kistu móður sinnar og hlaut nafnið Elín Hanna. Nokkru eftir andlát Elínar fluttist systir hennar, Herdís Ólafsdóttir, til Hannesar og annaðist um litlu stúlkuna. Þau gengu síðar í hjónaband og eignuðust tvo syni, Helga sundkennara á Akranesi, sem kvæntur er Valdísi Einarsdóttur og Guðmund Þór, vélvirkja, sem er kvæntur Margréti Gunnarsdóttur. Elín Hanna er gift Þorsteini Þorvaldssyni, vélstjóra.

Nr: 29921 Ljósmyndari: Óþekktur ljósmyndari Tímabil: 1930-1949