Einar Benediktsson

Einar Benediktsson (1864-1940) oft nefndur Einar Ben var skáld, ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og mikill athafnamaður. Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið Landvörn samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1906. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna Þjóðin (1914-15), Þjóðstefna (1916-17) og Höfuðstaðurinn (1916-17). Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð. Á árunum 1907-21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910-17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917-21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesi, þar sem hann lést 1940. Einar var grafinn í þjóðargrafreit á Þingvöllum. Texti af Wikipedia

Nr: 8726 Ljósmyndari: Óþekktur ljósmyndari Tímabil: 1930-1949 mmb00228