Íslandsmeistarar ÍA í meistaraflokki árið 1951

Íslandsmeistarar ÍA í meistaraflokki árið 1951, fyrst liða utan Reykjavíkur til að hljóta Íslandsmeistaratign í knattspyrnu meistaraflokks karla. Þegar Laxfoss lagðist að bryggju á Akranesi um miðnætti að loknum úrslitaleiknum, blasti ógleymanleg sjón við Íslandsmeisturunum, því að um 700 manns voru samankomnir á bryggjunni að fagna komu þeirra. Um leið og Laxfoss lagðist að, söng karlakórinn Svanir og var ekki laust við að sumum leikmannanna vöknaði um augu, svo hrærðir voru þeir yfir þessum innilegu móttökum. Hér er Sveinn Finnsson (1920-1993) bæjarstjóri að taka til máls og bjóða leikmenn og forystumenn ÍA velkomna og að því loknu hyllti mannfjöldinn Íslandsmeistarana. Guðmundur Sveinbjörnsson formaður ÍA þakkaði fyrir hönd liðsins með stuttu ávarpi. Fremsta röð frá vinstri: Oddur Dagbjartur Hannesson (1930-2000), Guðjón Finnbogason (1927-2017), Ríkharður Jónsson (1929-2017) fyrirliði og þjálfari sem heldur á bikarnum, Pétur Georgsson (1931-1987), Sveinn Teitsson (1931-2017), Guðmundur Jónsson (1927-1983), Magnús Kristjánsson (1921-1997), Þórður Þórðarson (1930-2002), Ólafur Vilhjálmsson (1926-1985) og Sveinn Bergmann Benediktsson (1925-1966) Þeir aðrir sem urðu Íslandsmeistarar en sjást ekki á myndinni eru Kristján Leó Pálsson (1925-2016), Jón S. Jónsson (1925-2003), Halldór Sigurbjörnsson (1933-1983) og Jakob Sigurðsson (1926-2012)

Efnisflokkar
Nr: 51767 Ljósmyndari: Ólafur Árnason Tímabil: 1950-1959