Garðar Bergmann Benediktsson (1919-2004) með rauðmaga á hjóli. Myndin sýnir Suðurgötu á móts við þar sem nú er Landsbankinn. Þetta er mjög fágæt ljósmynd! Tekin fyrir 1960. Húsið sem er næst á myndinni (til vinstri við manninn) er Skuld. Við það hús var Skuldartorg kennt og sjá má hluta þess á myndinni. Skuldartorg breyttist í Akratorg jafnskjótt og Skuld hafði verið jöfnuð við jörðu nálægt 1960 og torgið var sléttað og steinsteypt. Á bak við rauðmagamanninn reis seinna fjögurra hæða háhýsi, sem gjarnan var uppnefnt Lesbókin, vegna þess að það var byggt skömmu eftir að Morgunblaðið reisti sitt fræga stórhýsi við Aðalstræti. "Lesbókin"var byggð utan í Tvílyfta húsið með djúpu svölunum til hægri við rauðmagamanninn. Bjarni Stefánsson og kona hans búa í þessu húsi nú. Þegar myndin var tekin bjó í húsinu Einar Helgason og fjölskylda. Nefnt hús telst nú til Suðurgötu nr. 67.