Flugvél á Langasandi

Þessi vél var keypt af manni í Reykjavík og notuð til leiguflugs. Kom oft til Akraness, lenti á Langasandinum og tók fólk í útsýnisferðir. Hér skal endanlega kveðið upp úr með að þessi flugvél er af gerðinni Percival Proctor. Í fljótu bragði er auðvelt að ruglast á Percival Proctor og DeHavilland Chipmunk frá þessu sjónarhorni, með mannfjöldann í kring. Báðar eru knúnar svipuðum mótor frá DeHavilland og nefsvipurinn er því í stórum dráttum sá sami. Proctor er hins vegar með mun kraftmeiri mótor þar sem hún er stærri og var í upphafi ætlað að bera þrjá menn (seinni útgáfur báru fjóra). Chipmunk er hins vegar aðeins gerð fyrir tvo. Á myndinni sést að á stjórnklefa vélarinnar eru tvær hurðir sem opnast fram. Í D.H. Chipmunk sátu flugmaður og farþegi hvor aftan við annan, og yfir þeim var stjórnklefahlíf sem var rennt fram eða aftur, eins og var á flestum orrustuvélum í seinni heimsstyrjöld. Báðar voru þessar vélar framleiddar í upphafi sem kennsluvélar fyrir Breska flugherinn. Chipmunk var ætluð til að kenna nýliðum að fljúga en Proctor til að kenna lengra komnum fjarskipti og flugleiðsögu. Innvígðir flugáhugamenn munu geta greint nánar tegund mótors eftir hálfkúlunni sem stendur úr úr vélarhlífinni á miðri mynd, en hana er ekki að sjá á fyrstu módelum þessarar flugvélartegundar.

Efnisflokkar
Nr: 4761 Ljósmyndari: Ólafur Árnason Tímabil: 1930-1949 ola00054