Hegri MB 72

Vélbáturinn Hegri var einn af fyrstu vélbátunum sem Akurnesingar eignuðust, var 10,16 smálestir að stærð og þótti stór þá. Hegri var smíðaður í Reykjavík af Bjarna Þorkelssyni skipasmið og kom nýr til Akraness 1909 Í bátnum var 10 hestafla Dan vél og kostaði báturinn tilbúinn 7.000 kr. Fyrstu eigendur Hegra voru: Bjarni Brynjólfsson í Bæjarstæði, Bjarni Jóhannesson í Sýruparti, Guðjón Jónsson á Staðarfelli, Guðmundur Hansson í Akurgerði, Guðmundur Narfason á Völlum, Guðmundur Þórðarson á Vegamótum og Sigurður Halldórsson í Akbraut. Bjarni Brynjólfsson var fyrsti formaður á bátnum og jafnframt vélamaður og síðar vélamaður öll árin sem þeir félagar áttu Hegra. Formaður síðar var Guðmundur Þórðarson á Vegamótum. Á myndinni eru þeir félagar um borð og er Guðmundur á Vegamótum fyrir aftan stýrishúsið. Þeir gerðu Hegra út í 9 ár, þannig að myndin er tekin á árunum 1909-18. Báturinn mun síðan, samkv. heimildum í bókinni Íslensk skip hafa verið í eigu Flateyringa frá 1930. Haustið 1936 strandaði hann við Barðann við Önundarfjörð og eyðilagðist.

Efnisflokkar
Nr: 20882 Ljósmyndari: Árni Böðvarsson Tímabil: 1930-1949 oth02604