Skólabraut
Ó, þú bernsku minnar Skólabraut! Þú gatan eina með þína ótalmörgu drullupolla! Þeir voru gersamlega óteljandi rétt eins og hólarnir í Vatnsdalnum. Þótt hefillinn færi þarna um annað veifið var jafnan komin hin hefðbundna drullupollaröð strax daginn eftir. Það var engu líkara en það væri alltaf rigning á Skólabrautinni! Annars er hér alvara á ferð og verið að ljósmynda jarðarför, að því er virðist. Eitthvert mikilmennið hefur hér fallið í valinn, því líkfylgdin er fjölmenn. Athyglisverðastur er litli Ford vörubíllinn fremst. Upp á pall hans hefur kistunni verið tyllt að kirkjuathöfn lokinni, en sá viðeigandi háttur að flytja lík til grafar á vörubílspalli viðgekkst langt fram á sjöunda áratug tuttugustu aldar.
Efnisflokkar