Valbjörg Kristmundsdóttir (1910-1997). Í daglegu tali í mínu ungdæmi var þessi lágvaxna og skarpleita kona jafnan kölluð Valla, og aukheldur Valla í Bíóhöllinni, vegna þess að hún annaðist þrif í því ágæta húsi. Hún var afbragðsgóður hagyrðingur af guðs náð og lét eftir sig margan góðan kviðlinginn (Bróðir hennar var Aðalsteinn Kristmundsson, sem þorri þjóðarinnar þekkti sem Stein Steinarr skáld. Þá var hún í félagi við aðrar konur af Akranesi, meðlimur í eins konar ferða- og gönguklúbbi sem hafði útivist og fjallgöngur að sérstöku áhugamáli. Aðrar konur í þeim klúbbi af Skaga voru m.a. systurnar á Dvergasteini, þær Herdís og Sigríður, Sigrún Jónsdóttir, eiginkona Magnúsar Jónssonar kennara við Gagnfræðaskólann og síðar skólastjóra í Rvík, Guðrún í Grímu (versluninni við Suðurgötu) og Halla Árnadóttir í Ási.