Grafarkirkja fornfálegust þeirra íslensku torfkirkna sem varðveist hafa og timburgrind hennar hefur sérstöðu meðal torfkirkna. Grindin er með stafverki og kirkjan er í raun eina varðveitta stafkirkja landsins. Hún var aflögð þegar á seinni hluta 18. aldar og hafði verið notuð sem skemma um langa hríð þegar Matthías Þórðarson þjóðminjavörður tók að beita sér fyrir varðveislu hennar árið 1939. Vegna fjárskorts hófust viðgerðir ekki fyrr en undir 1950 og voru þá svo viðamiklar að öllum gömlu viðunum var skipt út en nýir voru sniðnir nákvæmlega eftir þeim gömlu. Form kirkjunnar er því eftir sem áður fornt og upphaflegar vindskeiðar eru geymdar á Þjóðminjasafninu. Kirkjan er sú eina á landinu sem er í hringlaga kirkjugarði. Garðurinn var endurhlaðinn um 1950 út frá sýnilegum veggleifum. Klukknaportið í garðinum er nýsmíði frá sömu viðgerð og er í stíl við kirkjuna. Texti af heimasíðu Þjóðminjasafns