Árni Thorsteinsson (1870-1962) tónskáld og ljósmyndari. Myndin er tekin 23.2.1892. Hann varð stúdent 1890, fór þá til Hafnar, varð cand, phil. árið eftir og las lögfræði í nokkur ár, en hætti námi, því sönglistin vakti meiri áhuga. Kom heim til Reykjavíkur vorið 1896, en fór aftur til Hafnar í febrúar 1897 og lærði ljósmyndafræði. Stofnsetti síðan ljósmyndastofu í Reykjavík um haustið 1897 og rak hana í 21 ár, til 1918. Jafnhliða ljósmyndarastörfum hafði hann frá 1907 umsjón með brunatryggingum húsa í Reykjavík fyrir danskt vátryggingarfélag. Síðan gerðist hann bókhaldari hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands og gegndi því starfi um 10 ára skeið (1918-29). Árið 1930 gerðist hann starfsmaður Landsbankans, fyrst við eftirlit með seðlaprentun með Halldóri Jónassyni frá Eiðum, sem hafði umsjón með því verki, og frá 1940 í víxladeild bankans, þar til hann varð að fara frá fyrir aldurs sakir.