Gullfoss er í Hvítá, þar sem hann fellur í tveimur þrepum niður í Hvítárgljúfur, sem eru allt að 70 m djúp. Efri fossinn er u.þ.b. 11 m hár en hinn neðri 21 m. Gljúfrið er u.þ.b. 2½ km langt og hefur myndast á síðustu 10.000 árum (25 sm á ári). Hvammur í gljúfrinu, nokkru neðan Gullfoss, heitir Pjaxi. Ofan Gullfoss eru straumharðar flúðir í ánni. Samkvæmt sögnum óðu menn ána þar, þótt ólíklegt sé. Sagt er að Þórður Guðbrandsson frá Brattholti hafi beðir sér konu á þeim slóðum yfir ána. Hún tók vel í það og sagðist mundu taka honum, ef hann kæmi strax til sín yfir ána, sem hann gerði. Árin 1930 og 1948 komu svo stór flóð í ána, að neðri foss Gullfoss hvarf og gljúfrið fylltist af vatni. Fossinn var í eigu Brattholtsbænda, þegar hann komst í hendur erlends fyrirtækis, sem hugðist virkja ána í gljúfrinu. Sigríður Tómasdóttir, eigandi og ábúandi Brattholts fyrr á 19. öldinni undi því ekki, að bezti vinur hennar, fossinn, væri í eigu útlendinga og hyrfi líklega. Hún höfðaði mál gegn fyrirtækinu og fékk Svein Björnsson til aðstoðar. Hún tapaði miklu fé á þessu máli en fossinn komst aftur í eigu Íslendinga og hefur verið í eigu ríkisins síðan