Ellefu ungir Akurnesingar fórust í „Hafmeyjarslysinu" árið 1905 Stjórn og styrktarnefnd Kiwanisklúbbsins Þyrils á Akranesi stóð að gerð minnismerkis um „Hafmeyjarslysið" árið 1905, en í því slysi fórust ellefu ungir Akurnesingar uppi í landsteinum við Akranes. Hugmyndin er að minnismerkið verði staðsett við gamla vitann á Breiðinni. Bjarni Þór Bjarnason bæjarlistamaður hefur tekið að sér gerð minnismerkisins ef af verður. Sexmannafarið fórst uppi í landsteinum. Upphaf þessa máls má rekja til fundar hjá klúbbnum þar sem slysið bar á góma, en það mun vera það mannskæðasta í sögu Akraness. Með slíku minnismerki yrði minningu hinna ungu Akurnesinga sem fórust við upphaf aldarinnar haldið á loft auk þess sem þarna risi sýnilegt tákn ræktarsemi og virðingar. „Hafmeyjarslysið" varð laugardaginn 14. september 1905 en þá var sexmannafarið Hafmeyjan á leið frá Reykjavík til Akraness með ellefu unga Akurnesinga innan borðs, fólk á aldrinum 20-30 ára. Þarna fórust fimm systkin, börn Helga bónda Guðmundssonar á Kringlu, ennfremur þrír bræður, synir Björns bónda Jóhannssonar í Innsta-Vogi sem voru á heimleið eftir sumarvertíð á Kútter Sigurfara sem nú er við Byggðasafnið í Görðum. Hvernig þetta hörmulega slys bar að vita menn ekki en ætla má að ofhleðsla hafi átt hlut að máli. Báturinn var kominn mjög nærri landi á Akranesi er hann fórst svo vaða mátti út á skerið sem hann rakst á. Tvö lík fundust fljótt en önnur ekki. Önnuðust endurgerð gamla vitans á Breiðinni Klúbbfélagar í Þyrli sáu um og önnuðust endurgerð gamla vitans á Breiðinni í tilefni af 50 ára kaupstaðarafmæli Akraness 1992 og vilja nú minnast þessa slyss með viðeigandi hætti. Ekki síður fylgir þessari hugmynd að bæta aðgengi að vitanum og næsta umhverfi hans og auka þannig veg gamla vitans. Klúbbfélagar hafa bent á að ýmislegt komi til álita í þeim efnum, m.a. að gera göngubrú frá landi yfir á klappirnar og koma þar fyrir æskilegum leiðbeiningum og upplýsingum fyrir almenning og ferðafólk um sögu vitanna beggja, örnefni, náttúrufar og útsýni, sem er afar sérstætt frá þessum stað. Morgunblaðið/Jón Gunnlaugsson