Heiðursvörður Jórvíkurherfylkisins bíður á Akranesbryggju með brugðna byssustingi eftir komu Gort lávarðar og yfirhershöfðingja í breska hernum. Hann kom til Akraness í október árið 1940. Sennilega hefur enginn jafn hátt settur herforingi nokkru sinni heiðrað Akranes með heimsókn sinni, hvorki fyrr né síðar. Sir John Gort var breskur aðalsmaður sem barðist í báðum heimsstyrjöldum. Fyrir afrek sín í þeirri fyrri var hann sæmdur Viktoríukrossinum sem er æðsta heiðursmerki Breta, veitt hermönnum fyrir hugrekki í orrustu. Í seinna stríði stýrði hann breska heraflanum í Frakklandi þar til yfir lauk við Dunkirk. Eftir það fór hann meðal annars í ferð til Hjaltlandseyja, Orkneyja og Íslands þar sem hann heimsótti Akranes. Síðar átti Gort eftir að verða landsstjóri á Gíbraltar og Möltu í Miðjarðarhafi þegar eyjan lá undir stöðugum árásum Þjóðverja. (Texti við myndir er eftir Magnús Þór Hafsteinsson, vegna sýningarinnar Hernámið, sem var á vegum Ljósmyndasafns Akraness árið 2008).