Malarrifsviti

Fyrst var reistur viti á Malarrifi árið 1917. Það var 20 m hár járngrindarviti sem smíðaður var í Reykjavík, fluttur í hlutum á staðinn og settur þar saman. Eins og margir þeirra járngrindavita sem byggðir voru hérlendis lét eldri Malarrifsvitinn fljótt undan síga fyrir veðrun og ryði og árið 1946 var núverandi viti byggður í hans stað. Malarrifsviti yngri, hannaður af Ágústi Pálssyni arkitekt, er 24,5 m að hæð, steinsteyptur sívalur turn með fjórum stoðveggjum sem gefa honum sérstakt yfirbragð. Hann var húðaður með ljósu kvarsi en hefur nú verið kústaður með hvítri sementsblöndu. Ljóshúsið var áður á eldri vitanum. Það er íslensk smíð. Gasljós var í vitanum fram til 1957 að hann var rafvæddur. Ljósið er magnað með 1000 mm linsunni sem kom á Malarrif 1917. Vitavörður hafði fasta búsetu á Malarrifi frá 1917 til 1991. Íbúðarhús var byggt árið 1953 og stækkað 1966. Radíóviti var starfræktur á Malarrifi um nokkurt skeið í vélahúsi sem þar stendur enn. Malarrifsviti er í hópi friðaðra vita.
Texti af sjominjar.is

Efnisflokkar
Fjöll ,
Nr: 42127 Ljósmyndari: Axel Sveinbjörnsson Tímabil: 1960-1969 axs00038