Merkjárfossar eru í Fljótshlíð um 21 km frá Hvolsvelli. Í ánni Merkjá eru nokkrir fossar og þeirra þekktastur er Gluggafoss en hann er um 40 m hár. Efri hluti klettanna sem hann fellur um er móberg en neðri stallurinn er úr blágrýti. Nafn sitt dregur fossinn af því að vatnið hefur sorfið mjúkt móbergið og myndað göng, vatnið spýtist svo út um gangnaopin, "gluggana" í fossinum neðanverðum. Efst í fossinum fellur hluti vatnsins undir steinboga. Þar sem bergið er mjúkt breytist fossinn nokkuð á einum mannsaldri. Um 1947 sást til að mynda lítið af efri hluta fossins því þar féll hann í göngum og var því að mestu hulinn bergi. Bergið var með þremur opum eða gluggum hverju upp af öðru og sást í hvítan vatnsflauminn í gegn um þessa glugga. Um neðsta gluggann bunaði svo vatnið út í fallegum boga en í vatnavöxtum fossaði vatnið út úr öllum þremur gluggunum. Miklar breytingar urðu á Gluggafossi í kjölfar Heklugossins 1947. Var það talið vera vegna þess að um 20 cm lag af vikri féll hér í gosinu, vikurinn barst í ána og hefur að líkindum sorfið klettana hraðar niður en ella. Hurfu göngin að mestu en eru nú óðum að ná fyrri reisn. Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti.