Krosskönguló

Krosskönguló - Araneus diadematus Krosskönguló hefur einnig verið kölluð fjallakönguló. Það er vart við hæfi því hún finnst ekki til fjalla. Hún er mjög algeng í byggð og hefur farið fjölgandi á húsveggjum eftir því sem skjól hefur aukist með auknum og vöxtulegri trjágróðri í görðum og um leið gjöfulli fæðulindum. Á höfuðborgarsvæðinu er hún algengust í gamalgrónum hverfum á húsveggjum sem vita móti sól. Hún er heldur illa þokkuð, enda stór og ófrýnileg í augum margra en ekki kunna allir landsmenn að meta nærgöngula granna úr heimi smádýranna. Mörgum er einnig í nöp við stóran vefinn sem gjarnan er um metri í þvermál og veitir góða mótstöðu þegar gengið er í hann en silkiþráður köngulóa er með sterkustu og seigustu efnum sem þekkt eru. Því verður þó vart neitað að krosskönguló er afar áhugavert dýr. Hún er ötul við veiðar á öðrum smádýrum í görðum. Auk þess er áhugavert að fylgjast með systkinahópum sem birtast á vorin og halda sig í þéttum hnapp um hríð, um 200 saman, áður en leiðir skilja. Þá er fátt eins spennandi og að fylgjast með tilhugalífi kynjanna og þeim lífsháska sem karlinn leggur sig í við að biðla til kræsilegrar kerlu, sem oftar en ekki klófestir hann eftir að hann hefur skilað sínu og leggur hann sér til munns. Hann dvelur dögum saman við vef kvendýrsins og bíður færis á að ná hug hennar. Þess má einnig geta að það er einstaklega fallegt að líta yfir sindrandi klettaveggi Almannagjár síðsumars sindrandi af vefum köngulónna. Krosskönguló er breytileg á lit. Þær eru misjafnlega dökkar, oftast grábrúnar með einkennandi litmynstri á afturbol sem myndar misgreinilegt krossmark og fætur með áberandi ljósum beltum. Sumar eru mun ljósari, allt að gular á lit. Afturbolur á fullþroska kvendýrum er stór og kúlulaga, um einn cm á lengd og breidd. Karldýrin eru mun nettari á botninn. Upplýsingar af http://www.ni.is/poddur/nattura/poddur/

Efnisflokkar
Nr: 19124 Ljósmyndari: Kristján Kristjánsson Tímabil: 2000-2009 krk00266