Rjúpa (fræðiheiti: Lagopus muta eða L. mutus) er lítill fugl af orraætt (tetraonidae), um 31–35 cm að lengd. Rjúpan er staðfugl og verpir á heimskautasvæðum og norðlægum slóðum í Evrasíu, Norður-Ameríku og einnig á Grænlandi) á heiðum, fjalllendi og á túndru. Rjúpan er sérstök meðal fugla að því leyti að hún skiptir um hluta fjaðurhams þrisvar á ári. Breytir um lit eftir árstímum, á sumrin og haustin er rjúpan brúnleit með svörtum flikrum, í vetrarbúning eru bæði kynin allhvít með svart stél. Í júlí fella rjúpur flugfjaðrir og stélfjaðrir. Karrinn helgar sér óðal í lok apríl og kvenfuglinn kemur tveimur til þremur vikum síðar. Rjúpan verpir að jafnaði 12 eggjum. Útungunartíminn er um 3 vikur og ungarnir yfirgefa hreiðrið strax. Þeir fylgja móður sinni eftir í 6 - 8 vikur. Rjúpan er jurtaæta, hún lifir á rjúpnalaufi (blöð holtasóleyjar), kornsúrulaukum, krækilyngi (ber), aðalbláberjalyng (greinaendar, ber), birki (reklar, blaðbrum), grasvíðir og fleiri jurtum. Rjúpa er algeng um allt land. Hún er staðfugl en ferðast innanlands utan varptímans. Yfir varptímann eru rjúpur algengar í móum, mýrum og kjarrlendi. Á veturnar halda rjúpur til fjalla og upp á heiðar en þær eru einnig í hraunum og kjarrlendi. Fram eftir vetri stýrast ferðir rjúpu af leit að bestu beitilöndunum. Rjúpur geta halda sig á fjöllum að deginum en flogið langa leið til beitilanda og náttstaða neðar á heiðum þegar rökkvar. Rjúpan er lykiltegund í íslensku vistkerfi og einn einkennisfugla íslenskrar náttúru. Rjúpnaveiðar eru vinsælt tómstundagaman og er rjúpnasteik hluti af jólahefð margra íslenskra fjölskyldna. Stofnstærð er talin mjög breytileg, frá 50 þúsund til 200 þúsund pör á sumrin en allt að 1 milljón fuglar að vetri. Rjúpnastofninn er sveiflóttur og um tíu ár hafa liðið á milli toppa, þessar sveiflur eru taldar vera náttúrulegar og að skotveiðar stjórni þeim ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stofnbreytingarnar, þ.e. hvort stofninn vex eða minnkar, ráðast af vetrarafföllum. Hóflegar veiðar eru ekki taldar hafa áhrif á stöðu og hlutverk rjúpunnar í vistkerfinu. Rjúpan var friðuð frá hausti 2003 til hausts 2005. Texti af Wikipedia