Breska flugmóðurskipið Victorious var glænýtt og stolt breska flotans. Það tók mikinn þátt í verndun fyrstu Íshafsskipalestanna og var þá tíður gestur í Hvalfirði. Flugvélar frá skipinu gerðu loftárásir á skip Þjóðverja í Noregi og komust einu sinni í tæri við Tirpitz sem var systurskip Bismarck. Þessi þýsku orrustuskip voru einnig ný og talin ein þau fullkomnustu sinnar tegunar í heimi. Bismarck hafði verið sökkt í maí 1941? en Tirpitz var fært til Norður Noregs þar sem það var stöðug ógn við Íshafsskipalestirnar sem þurftu að sigla framhjá á leið sinni til hafna í Norðvestur Rússlandi. Þessi mynd er tekin við liðskönnun sjóliða á þilfari Victorious þar sem skipið liggur við Hvítanes sunnudaginn 6. febrúar 1942. Vélarnar á dekkinu eru tundurskeytaflugvélar af gerðinni Fairey Albacore. (Texti við myndir eftir Magnús Þór Hafsteinsson, vegna sýningarinnar Hernámið, sem var á vegum Ljósmyndasafns Akraness árið 2008) Fairey Albacore var ætlað að leysa eldri Fairey tundurskeytavélar af hólmi. Þær vélar nefndust Swordfish og þótt fornlegar væru réðu þær úrslitum um að Bretum tókst að sökkva Bismarck. Albacore-vélarnar reyndust hins vegar ekki vel og raunin varð sú að þær voru teknar fyrr úr notkun en Swordfish, sem þær áttu að leysa af hólmi. (Guðmundur Benediktsson, eftir ýmsum heimildum)