Víðir MB 35 - 1943

Víðir MB 35 fer á flot í fyrsta sinn. Víðir MB 35, síðar AK 95 var smíðaður á Akranesi 1943, var nokkur ár í ferðum milli Akraness og Reykjavíkur, hét síðast Mánatindur SU 95, talinn ónýtur 1965. Víðir var eikarbátur, 104 brl., smíðaður á Akranesi 1943 fyrir Víði hf. á Akranesi. Veturinn 1943-44 var skipið í póstferðum við Norðurland milli Akureyrar og Sauðárkróks með viðkomu á höfnum þar á milli og í Grímsey. Síðan var hann í sömu ferðum milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness til ársins 1947. Seldur í júní 1949 til Reykjavíkur og breytt í fiskiskip. Í desember 1952 var Víðir síðan seldur til Djúpavogs. 1957 var nafni bátsins breytt og hét hann eftir það Mánatindur SU 95. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 1965. Myndin er tekin í nóvember 1943. Úr fréttablaðinu <i>Akranes<i\>, 10.-12.tbl., 2.árg. 1943: „Víðir“, hið nýja skip h.f. „Víðis“, (sem á og gerir út togarann Sindra), er 103 tonn að stærð, eins og fyrr segir og hefur verið byggt hér í Dráttarbraut Þorgeirs Jósefssonar. Skipið er hið vandaðasta og traustasta að öllum frágangi og hið glæsilegasta. Það er byggt úr eik. Hefur 320 hk. Lister-Dieselvél, ennfremur er 20 hk. ljósavél af sömu gerð, og er skipið allt hitað með rafmagni, svo og er í því rafmagnseldavél frá Rafha í Hafnarfirði. Svefnklefar skipverja eru í framstafni. Þar fyrir aftan er allmikið farþegarúm, (því skipið er nú fyrst ætlað til fólks- og vöruflutninga, þó það væri upphaflega hugsað til fiskveiða). Teikningu af skipinu gerði Eyjólfur Gíslason úr Reykjavík og nemandi hans Magnús Magnússon frá Söndum. Eyjólfur var jafnframt yfirsmiður. Alla járnsmíði og niðursetningu véla annaðist Vélsmiðja Þorgeirs og Ellerts. Raflagnir Sveinn Guðmundsson rafvirki. Málningu Lárus Árnason málarameistari. Hampþéttingu alla annaðist Benedikt Tómasson skipstjóri á Akranesi. Bólstrun bekkja og þessháttar annaðist Runólfur Ólafsson bólstrari. Hurðir allar og glugga smíðaði Teitur Stefánsson trésmiður, en uppsetningu reiða annaðist Óskar Ólafsson úr Reykjavík.

Efnisflokkar
Nr: 25044 Ljósmyndari: Bjarni Árnason Tímabil: 1930-1949 bar00976