Knattspyrnufélagið Kári 2011

Lið Kára í fyrsta leiknum sínum í 3. deild C-riðli gegn liði Afríku, sem Kári vann 9-3. Leikurinn fór fram í Akraneshöllinni þann 21. maí 2011. F.v.: Viktor Ýmir Elíasson, Valdimar Sigurðsson þjálfari, Aron Örn Sigurðsson, Elinbergur Sveinsson, Almar Björn Viðarsson, Eyþór Ólafur Frímannsson, Kristján Hagalín Guðjónsson, Gísli Freyr Brynjarsson, Heiðar Logi Sigtryggsson, Sveinbjörn Geir Hlöðversson, Sturla Már Guðmundsson og Ragnar Þór Gunnarsson. Af vef ÍA: Fyrsti leikur Káramanna á Íslandsmóti í hátt í 4 ár fór fram í Akraneshöll síðastliðinn laugardag. Fyrir leikinn mátti búast við nokkuð léttum sigri Káramanna enda Káramönnum spáð fjórða sætið í sínum riðli á meðan Afríku var spáð botnsætinu. Það var ljóst strax á fyrstu mínútum leiksins að Káramenn væru mun sterkari aðilinn í leiknum og það tók þá ekki nema rúma mínútu að skora fyrsta mark leiksins, en þar var á ferðinni Gísli Freyr Brynjarsson, en hann átti eftir að koma mikið við sögu í fyrri hálfleik því eftir um hálftíma leik var hann búinn að skora 4 mörk eða öll mörk Kára í fyrri hálfleik. Gísli Freyr fór af velli eftir rúmann hálftíma vegna meiðsla og búinn að skila sínu hlutverki sem framherji fullkomlega. Afríka var með þokkalegt lið miðað við undanfarin ár og komu þeir nokkuð á óvart á miðju og frammá við en vörn og mark var þeirra helsti galli. Afríka náði að skora 1 mark í fyrri hálfleik og staðan að loknum 45 mínútum 4-1 fyrir Káramenn. Seinni hálfleikur fór ágætlega af stað hjá Káramönnum og komust þeir í 9-1, en mörkin skoruðu Aron Örn Sigurðsson, Valdimar Kristmunds Sigurðsson, Sveinbjörn Geir Hlöðversson, Valgeir Valdimar Valgeirsson og Kristján Hagalín Guðjónsson. Káramenn urðu nokkuð markagráðugir við þessa markaveislu og kom það niður á spili liðsins og í staðin fyrir að auka forystuna skoruðu Afríkumenn 2 mörk og úrslitin 9-3 sigur Káramönnum í vil. Káramenn spiluðu í nýjum og glæsilegum búningum í leiknum og voru rauðir og svartir þverröndóttir líkt og Káramenn spiluðu í fyrsta árið sitt 1922. Heiðursfélaginn og guðfaðir Káraliðsins Helgi Daníelsson á allan heiður að þessum fallegu búningum. (Sveinbjörn Geir Hlöðversson)

Efnisflokkar
Nr: 30796 Ljósmyndari: Helgi Daníelsson Tímabil: 2010-2019